Skip to content

Vötnin í Berlín

July 19, 2014

Í Berlín eru óteljandi falleg vötn og græn svæði. Á sumrin jafnast eiginlega ekkert á við það að skella sér í vatn eftir langan og heitan dag í stórborginni. Við búum alveg við ána Spree sem rennur í gegnum borgina og setjumst því gjarnan í lok dags við ána. En við hjólum líka oft að nálægu vatni, setjumst við það, hjólum hring, eða förum útí til að kæla okkur og taka sundsprett.

Plötzensee er vatnið sem er næst okkur, handan við S-lestarstöðina Beusselstr.(hringurinn) og bara 10 mínútna hjólatúr að heiman. Við förum því oftast þangað, hvort sem er í skóginn og hjólum hring í kringum vatnið eða förum inná strandsvæðið þar sem gott er að fara í vatnið. Þar er bar, grill, og ýmis þjónusta, og góð aðstaða fyrir börn.

plötzensee2

Mynd tekin 18.júlí 2014

plötzensee1

Mynd tekin 18.júlí 2014

plötzensee3

Mynd tekin 18.júlí 2014

plötzensee2

Mynd tekin apríl 2014

Einhverjir kannast kannski við Weißensee frá vinsælli sjónvarpsþáttaröð sem sýnd var á Íslandi fyrir nokkrum árum. Einn þekktari listaháskóli borgarinnar er kenndur við Weißensee og nálægt vatninu er mjög fallegur gyðingakirkjugarður, sá næststærsti í Evrópu. Weißensee vatnið er í norðaustur hluta borgarinnar og við höfum farið þangað ef við erum í stuði að hjóla langt.

weisenseesept2012

Mynd tekin september 2012

Annars þykir mér skemmtilegast að synda í Ólympíulauginni við Ólympíuleikvanginn, sem er opin á sumrin. Þá mæti ég snemma til að fá pláss til að synda, en laugin er opin frá 7 á morgnana og fram á kvöld, 10m hár stökkpallur (sem ég hef ekki prófað en one day…), yllaugar og 50m keppnislaugin. Þess virði að fara þangað bara til að sjá tilkomumikinn arkitektúrinn, en leikvangurinn var reistur fyrir Ólympíuleikana 1936 (hef áður skrifað um það á þessa síðu).

olympia1

Mynd tekin júlí 2013

olympia2

Þrír stökkpallar, hæsti í 10m hæð. Mynd tekin júlí 2013

olympia

Þórir hefur síðastliðin þrjú ár klárað prófin í lok júlí. Þá hafa margir Þjóðverjar legið í sólinni í þónokkurn tíma… júlí 2013

Þekktasta og vinsælasta vatnið í Berlín er ef til vill Wannsee, sem er við Havel ána og Grunewald skóginn. Hef sjálf ekki farið þangað því ég held að þar sé of margt fólk fyrir minn smekk en veit auðvitað ekkert um það. Hef sent gesti í dagsferðir þangað sem flestir hafa verið ánægðir með.

Á líka eftir að prófa vötnin suðausturúr, til dæmis á Müggelsee að vera frábært og það er á sumardagskránni að hjóla þangað, um tveggja tíma hjólatúr heiman frá.

Íslendingar mega ekki láta sér bregða en við flest vötnin er að finna svokallað FKK Bereich – Frei Körper Kultur. Nektarmenningin (eða náttúrumenningin) í Þýskalandi á sér langa sögu, sérstaklega í austurhluta Þýskalands. Það var reynt að banna nektarstrendur á tíma DDR en án árangurs – enda er nakinn maður stéttlaus maður!

Mynd tekin á DDR safninu

Mynd tekin á DDR safninu júní 2014

Af nógu er að taka. Hér er mjög gott yfirlit yfir sund- og baðstaði borgarinnar sem opin eru á sumrin með kortum, leiðbeiningum hvernig best er að komast þangað, þjónustu í boði, verð ofl.

Það má líka taka það fram að í Berlín er fullt af góðum innanhússlaugum sem eru opnar allt árið um kring og unaðslegum tyrkneskum sánum (hamam) – þegar þarf að hlýja sér á veturna.

Gleðilega áframhaldandi hitabylgju.

No comments yet

Leave a comment